Fræðasamskipti, kennitölur fyrir fræðimenn og opið aðgengi

Posted by & filed under Uncategorized.

Eftir farsælan starfsferil framan af sem “gagnagaur” (e. data dude) hef ég síðustu ár verið að færast æ lengra í burtu frá upphafi mínu í lífupplýsingafræðigeiranum. Rannsóknarnámið og -vinnan í Leicester 2006 til 2011 tengt  meðhöndlun, birtingu og aðgengi að lífgögnum (þ.e. frekar en greiningu á gögnum til að svara ákveðnum vísindalegum spurningum) er einn þáttur í þessu (sjá t.d. skrif mín hér og hér).

Síðustu tvö til þrjú ár hef ég síðan unnið nær alfarið að talsvert almennari hlutum sem má gróflega flokka undir fræðasamskipti (e. scholarly communication), m.ö.o. allt mögulegt tengt því að deila og dreifa niðurstöðum rannsóknarvinnu fræðimanna innan  fræðisamfélagsins og víðar (sjá grein í Wikipedia).

ORCID – kennitölur fyrir fræðimenn

Aðkoma mín að ýmsum verkefnum tengdum ORCID samtökunum eru einn angi af þessu (sjá t.d. hér og hér). Það er margt skemmtilegt í gangi á þeim vettvangi akkúrat núna, enda hleypti ORCID af stokkunum fyrstu útgáfu af miðlægu auðkenningarkerfi fyrir fræðimenn í október s.k.. Eins og margir aðrir hef ég verið viðloðandi ORCID um nokkurt skeið og hóf nýverið störf hjá þeim að vissum verkefnum sem ég skal reyna að blogga um á næstunni.

Vefur fyrir rannsóknarstofnun

Annar angi er svo verkefnavinna sem ég tók að mér fyrr á árinu hjá Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands (LUVS) í hlutastarfi. Starfið felst í því að koma vef stofnunarinnar á koppinn (sem er komið, vefurinn fór í loftið í sumar á http://luvs.hi.is) og svo sjá um hann, og annað í þeim dúr. Ég mun vinna hjá LUV í 25% starfshlutfalli út þetta ár, og svo sjáum við til hvað gerist eftir áramót.

Opinn aðgangur að fræðiefni

Síðast en ekki síst vil ég nefna grasrótarstarf í tengslum við opinn aðgang (OA, e. open access) á Íslandi. Þar hef ég tekið þátt í ýmsum verkefnum eins og undirbúningi Reykjavik Digital Freedoms ráðstefnunnar og hef m.a. umsjón með upplýsingavefnum http://opinnadgangur.is sem við settum í loftið í haust. Hér er mikið sóknarfæri og mikilvægt starf sem þarf að vinna, því Ísland er frekar aftarlega á merinni m.v. mörg nágrannalönd okkar hvað framgang OA varðar. 

 

Það er því nóg að gera og fullt af skemmtilegum verkefnum til að takast á við, hér heima sem og erlendis. Ég kvíði alls ekki að verða aðgerðarlaus neitt á næstunni!

Comments are closed.